Trúnaðarráð norðuráls
   
  Lekinn
  Gildissvið
 
Samkomulag
um meginreglur varðandi gerð kjarasamninga.
 
Undirritaðir aðilar, Gene Caudill, forstjóri, og Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri starfsmanna- og stjórnunarsviðs, fyrir hönd Norðuráls hf., Ármúla 20, Reykjavík, vegna væntanlegrar starfsstöðvar á Grundartanga (í samkomulagi þessu nefnt “Norðurál”) annars vegar, og Ingólfur Ingólfsson, formaður, fyrir hönd Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi, Kirkjubraut 40, Akranesi; Hervar Gunnarsson formaður, fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness, Kirkjubraut 40, Akranesi; Jón Sigurðsson, fyrir hönd Verkalýðsfélagsins Harðar, Hafnarskógi, Hvalfirði; Berghildur Reynisdóttir, formaður, fyrir hönd Verkalýðsfélags Borgarness, Borgarbraut 4, Borgarnesi; Júnía Þorkelsdóttir, formaður, fyrir hönd Verslunarmannafélags Akraness, Kirkjubraut 40, Akranesi; og Guðmundur Gunnarsson, formaður, fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands, Háleitisbraut 68, Reykjavík, (í samkomulagi þessu sameiginlega nefnd “stéttarfélögin”) hins vegar, gera með sér um skipan verkalýðsmála í væntanlegri álbræðslu Norðuráls hf. á Grundartanga í Hvalfirði neðangreint samkomulag um meginreglur.
 
Forsendur samkomulagsins:
 
A.                Norðurál hf. (ásamt móðurfélagi sínu Columbia Ventures Corporation) hefur gert fjárfestingarsamning við Ríkisstjórn Íslands, sbr. lög nr. 62/1997 um álbræðslu á Grundartanga, og hefur nú þegar hafið framkvæmdir við byggingu álbræðslu með framleiðslugetu sem í upphafi verður um það bil 60.000 tonn af áli á ári. Gildistími fjárfestingarsamningsins er til 31.október 2018. Fyrir 7. ágúst 2014 skulu Norðurál og Columbia Ventures Corporation hafa lokið viðræðum við Ríkisstjórn Íslands um framlengingu samningsins í 10 ár frá ofangreindum lokadegi með þeim skilmálum sem aðilar geta sameiginlega fellt sig við. Gert er ráð fyrir því að álverið verði á næstu árum stækkað til þess að það geti framleitt allt að 180.000 tonn af áli á ári. Miðað við núverandi framkvæmdaáætlun er fyrirhugað að álbræðslan hefjist í júní 1998 og að álbræðslan verði komin í fulla framleiðslu miðað við 60.000 tonn eigi síðar en um áramótin 1998/1999.
 
B.                 Til þess að gangsetja og starfrækja álverið í upphafi, þ.e. miðað við upphaflega 60.000 tonna framleiðslugetu á ári, þarf Norðurál að ráða til sín starfsfólk, þ.e starfsmenn í kerskála, skautsmiðju, steypuskála, á skrifstofu og við aðrar stoðeiningar. Hér er um að ræða hvort tveggja störf faglærðra og ófaglærðra starfsmanna. Stefnt er að því að upphafstími ráðninga í fyrstu störf sé eigi síðar en 1. janúar 1998.
 
C.                 Hin væntanlega álbræðsla á Grundartanga er, að því er væntanlega starfsmenn varðar, á félagssvæði ofangreindra stéttarfélaga. Norðurál skuldbindur sig til þess að láta félagsmenn stéttarfélaganna ganga fyrir um ráðningu nýrra starfsmanna að því tilskildu að þeir uppfylli þær kröfur sem Norðurál gerir, enda sé félögin opin nýjum starfsmönnum óháð búsetu. Þá skuldbindur Norðurál sig til þess að uppfylla lög og reglur um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum gagnvart væntanlegum starfsmönnum. Norðurál mun skipuleggja og kosta læknisskoðun starfsmanna áður en gengið verður frá endanlegri ráðningu.
 
Á grundvelli þessara forsendna gera aðilar með sér eftirfarandi
 
s a m k o m u l a g   um m e g i n r e g l u r:
 
1.                  Stéttarfélögin munu standa sameiginlega að gerð kjarasamnings, vinnustaðarsamnings, sem gilda mun milli allra starfsmanna sem eru félagar í stéttarfélögunum og Norðuráls. Aðilar samkomulags þessa eru því samþykkir að á meðan í gildi er fjárfestingarsamningur sá sem vísað er til í forsendu A hér að framan, (þ.m.t. ef til koma framlengingar aðlaganir, breytingar eða skýringar á honum), skulu vinnustaðarsamningar bornir sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna stéttarfélaganna sem þeir taka til og ræður meiri hluti atkvæða niðurstöðu. Hver félagsmaður hefur eitt atkvæði, óháð því hvaða stéttarfélagi hann tilheyrir. Vinnustaðarsamningur er kjarasamningur í skilningi 4. mgr. 5 gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, sbr. lög nr. 75/1996 um breytingu á þeim.
 
2.                  Stéttarfélögin skulu hvert um sig tilnefna einn mann, og annan til vara, í samninganefnd vegna vinnustaðarsamnings hjá Norðuráli á Grundartanga.   Skal slík tilnefning tilkynnt framkvæmdarstjóra starfsmanna- og stjórnunarsviðs Norðuráls. Tilnefningin gildir þar til hún hefur verið afturkölluð af hálfu viðkomandi félags. Norðurál tilnefnir nefndarmenn af sinni hálfu.
 
Nefndarmenn sem tilnefndir eru að hálfu stéttarfélaga, skulu hver um sig hafa umboð til að undirrita vinnustaðarsamning fyrir hönd viðkomandi félags, sem síðan skulu bornir undir atkvæði, sbr. 1 gr. hér að ofan.
 
3.                  Gildistími fyrsta vinnustaðarsamnings milli aðila samkomulags þessa skal miðast við að hann falli úr gildi sex árum eftir að fullur rekstur hefst í 60.000 tonna álbræðslunni, sem áætlað er að verði um áramót 1998/1999, þ.e. um áramótin 2004/2005. Það er sameiginlegt markmið aðila að stefnt skuli að því að þeir vinnustaðarsamningar sem á eftir fari skuli gerðir til fimm ára hið minnsta í hvert skipti.
 
4.                  Samkvæmt friðarreglu vinnuréttar skuldbinda stéttarfélögin sig til að grípa hvorki til verkfalla né annarra aðgerða sem gætu raskað starfsemi álversins á gildistíma hins fyrsta vinnustaðarsamnings. Norðurál skuldbindur sig til að grípa ekki til verkbanns á sama tíma.
 
5.                  Aðilar samkomulags þessa eru sammála um að í þeim vinnustaðarsamningum sem gerðir verða á hverjum tíma í samræmi við samkomulag þetta og að því leyti sem slíkir vinnustaðarsamningar kunna að hafa annan gildistíma en kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði (t.d. á milli ASÍ og VSÍ), skuli á hverjum tíma vera ákvæði sambærileg þeim sem kunna að vera í slíkum almennum kjarasamningum að því er varðar leiðréttingar á kjörum vegna verðbólgu, þ.e. verðtryggingarákvæði. Samningsbundnar heildarlaunagreiðslur skulu ekki vera lægri en hækkanir sem um kann að hafa verið samið fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins hf. á Grundartanga við sambærileg störf sem nánar verður kveðið á um í kjarasamningi.
6.                  Norðurál og stéttarfélögin skuldbinda sig til að ganga til viðræðna í góðri trú til þess að ná samkomulagi um fyrsta vinnustaðarsamninginn. Stefnt skal að því að samningsgerð skuli lokið fyrir 31. desember 1997, en ráðningar í störf hefjast eigi síðar en 1. janúar 1998, sbr. B-lið í forsendum samningsins.
 
7.                  Náist ekki samkomulag um hinn fyrsta vinnustaðarsamning innan ofangreindra tímamarka og álíti Norðurál nauðsynleg að hefja ráðningar til þess að áætlanir um gangsetningu álbræðslunnar raskist ekki, er Norðuráli heimilt að ráða félagsmenn stéttarfélaganna til starfa og á þá rétt á að láta síðasta tilboð sitt um viðkomandi mál (kjör) gilda meðan frekari viðræður við stéttarfélögin fara fram. Enn fremur er samkomulag um að réttur Norðuráls til að láta síðasta tilboð sitt um sérhvert mál gilda skuli falla niður þegar Norðurál og stéttarfélögin ná fullu samkomulagi um fyrsta vinnustaðarsamninginn og þegar samningurinn hefur verið undirritaður og fullgildur, enda gildi samningurinn þá frá 1 janúar 1998.
 
8.                  Báðir samningsaðilar skuldbinda sig til að virða þær reglur um kjarasamninga, sem settar eru fram í neðangreindu stjórnunarákvæði, sem verður hluti af öllum vinnustaðarsamningum hjá Norðuráli á Grunartanga sem gerðir verða og því ekki breytt af hálfu stéttarfélaganna, né það notað sem ástæða til boðunar verkfalls, né annarra neikvæðra aðgerða af hálfu stéttarfélaganna.
 
Stjórnunarákvæðið hljóðar þannig:
 
“Rekstur álbræðslunnar og stjórn starfsliðs er eingöngu í höndum Norðuráls, þ.m.t. áætlanagerð, yfirstjórn og stjórn rekstursins í álbræðslunni, val á starfsfólki og ráðningar, tímasetningar verkefna og skipun starfsliðs til slíkra verkefna, gerð framleiðslustaðla, verk sem falin verða undirverktökum (enda sé undirverktökum ekki fenginn daglegur rekstur álbræðslunnar), ákvörðun og gerð sérhverrar nýrrar eða endurbættrar framleiðsluaðferðar, ákvörðun og skipulagning yfirvinnu, gerð og framkvæmd reglna um hegðun á vinnustað. Norðurál er reyklaus og vímuefnalaus vinnustaður.”
 
9.                  Norðurál og stéttarfélögin eru sammála um þá meginreglu að trúnaðarmannaráð, þar sem hvert stéttarfélaganna um sig á sinn fulltrúa, skuli sett á fót. Í ráðinu verði aðaltrúnaðarmaður, kjörinn af ráðinu sjálfu, en hann skal fyrir hönd ráðsins tala máli þess gagnvart Norðuráli.
 
10.              Aðilar samkomulags þessa eru sammála um að æskilegt sé að starfræksla álbræðslunnar verði í þeim anda að starfsfólki verið skipt í liðsheildir og að stuðlað verði að stöðugum endurbótum í rekstri. Þetta fyrirkomulag krefst þess að starfsmenn séu með fjölþætta verkkunnáttu, að þeir gegni mismunandi hlutverkum frá einum tíma til annars og að hvert lið um sig viðurkenni tilvist annarra liða og beri ábyrgð gagnvart þeim. Hlutverkaskipti hjá starfsmönnum geta ýmist orðið í sammæli innan liðsins eða á grundvelli ákvörðunar stjórnenda Norðuráls.
Þá eru aðilar sammála um að grunnurinn að fjölþættri verkkunnáttu felist í starfsþjálfun sem eykur framfarir hjá starfsmönnum. Fjölfærni gefur tækifæri til sveigjanleika fyrir starfsmenn til þess að sinna fjölþættum störfum. Aukin hæfni starfsmanna og framfarir veita þeim möguleika á fjölbreyttari störfum, eykur starfsöryggi þeirra, áhuga og starfsánægju.
 
Allir samningar sem gerðir eru í framhaldi af viðræðum milli Norðuráls og stéttarfélaganna, þ.á.m. þeir vinnustaðarsamningar sem fallist er á að gerðir verði samkvæmt samkomulagi þessu, verða hluti af einum kjarasamningi sem verður bindandi bæði fyrir Norðurál og stéttarfélögin.
 
Aðilar skulu leggja sig fram um að leysa þau ágreiningsmál sem upp kunna að koma varðandi túlkun og beitingu samkomulags þessa, en náist samkomulag ekki skal úr ágreiningi leyst fyrir Félagsdómi. Komi til þess tilnefnir Norðurál einn mann í dóminn og stéttafélögin sameiginlega annan mann, sbr. 39. gr. laga nr. 80/1938, sbr. lög nr. 75/1996 um breytingu á þeim.
 
Reykjavík, 18. nóvember 1997
 
 
 
  Today, there have been 2171 visitors (10882 hits) on this page!  
 
Þessi síða er í vinslu This website was created for free with Own-Free-Website.com. Would you also like to have your own website?
Sign up for free